Komdu í Team Spark!

Sækja um

Um Team Spark

Hvort sem þú ert í verkfræði, stærðfræði, eðlisfræði, tölvunarfæði, eða bara einhverju öðru, þá getur þú verið með og fengið verkefni sem hentar þér!

Þó svo að Team Spark sé í grunninn verkfræðilið háskólans, þá eru allar deildir og fræðisvið skólans velkomnar. Það þarf að huga að mörgu í svona stóru verkefni og því leitum við af öllu mögulegu fólki sem hefur áhuga á mismunandi hlutum. Til að vita meira þá er hægt að skoða Algengar spurningar hér að neðan, en þar er öllum helstu spurningum svarað sem tengjast nýliðun.

Burðarvirki

Hópurinn sér um að hanna burðarvirki bílsins. Burðarvirki bílsins er kallað monocoque (ísl. einbolungur), en þar er notast við koltrefjasamloku með léttum álkjarna, í stað hefðbundnar stálgrindar. Kostir einbolungs framyfir stálgrind eru margir, en þar má helst nefna mun minni þyngd, frjálslegri hönnun, og koltrefjar. Burðarvirkishópurinn sér einnig um allt sem tengist öryggi ökumanns og tengingu hans við bílinn, en þar má nefna t.d. höfuðpúða, sætisbelti, stýri, sæti, pedala, og eldvegg.

Drifkerfi

Drifkerfishópurinn sér um að skila eins miklu af afli mótorsins til dekkjanna með sem mestri nýtni. Ákvarðanatökur hópsins verða teknar út frá mælingum fyrri bíla, og er markmiðið að gera drifkerfið eins áreiðanlegt og stöðugt og hægt er. Drifkerfishópurinn þarf að vinna náið með fjöðrunarhópnum við ýmsar greiningar og teikningar.

Fjöðrun

Hlutverk fjöðrunarhópsins er að hanna, smíða, greina, og mæla það sem heldur dekkjunum við burðarvirki bílsins. Hópurinn sér einnig um akstursaflfræði (e. Vehicle dynamics) og greiningar á aksturseiginleikum bílsins og gerir það í nánu samstarfi við greiningarhópinn. Gagnasöfnun bílsins og aflestur gagna verða gerð góð skil ásamt fínpússun núverandi fjöðrunarkerfis.

Rekstrarsvið

Framkvæmdarhópurinn vinnur náið með stjórn liðsins við ýmist utanumhald og rekstur. Hópurinn annast meðal annars samskipti við styrktaraðila, viðburði, skipulag keppna, fréttabréf, hópefli liðsins, og alla samfélagsmiðla. Hópurinn vinnur í beinum tengslum við alla okkar styrktaraðila, skólann, og stjórnina. Verkefnin eru jafn fjölbreytt og fólkið í hópnum.

Loftflæði

Hópurinn sér um hönnun og smíði á vængjum og kælikerfi bílsins. Team Spark hefur notið mikillar athygli erlendis vegna einstakrar framleiðsluaðferðar sem gerir áferð vængjanna mjög góða. Hönnun vængja byggist mikið á góðum loftflæðigreiningum, og útsjónarsemi. Kælikerfið sér um að kæla bæði mótor og mótorstýringu með vatnskælingu. Vængir bílsins hafa þann tilgang að bæta aksturseiginleika bilsins bæði í beygjum jafnt sem á beinum vegi.

Rafmagn

Rafmagnshópurinn sér um alla hönnun, smíði, og forritun á flest öllum stýribúnaði bílsins. Mikill meirihluti rafbúnaðar bílsins er hannaður og smíðaður af liðsmönnum, svo reynslan í liðinu reynist mjög vel í framtíðarstörfum. Innan hópsins þarf að hanna og smíða rafeindarásir, forrita stýritölvur bílsins, þróa skynjarakerfi, hugsa um fjarskiptakerfi, og viðhalda rafkerfinu. Innan hópsins getur hver sem er fundið eitthvað kerfi við sitt hæfi.

Algengar spurningar

Ég veit ekki alveg hvaða hóp ég vil vera í, má ég skipta seinna?

- Auðvitað. Ef þú byrjar í einhverjum hóp en heldur svo að þér muni líka betur við einhvern annan þá má skipta.

Hvenær á ég að sækja um? Er eitthvað “deadline”?

- Sæktu bara um sem fyrst, það er ekkert að því að skrá sig úr liðinu ef það kemur í ljós seinna meir að þú hefur ekki nægan tíma fyrir verkefnið. Það er ekkert deadline, en því fyrr því betra!

Afhverju þarf ég að velja um þrjá hópa?

- Stundum vantar fólk í ákveðna hópa og þá er gott að hafa viðmið um hvort fólk valdi hópinn í 2. val eða 3. val, svo hægt sé að færa fólk á milli.

En ég er ekki í verkfræði, má ég vera með?

- Auðvitað! Allir eru velkomnir. Við finnum bara í sameiningu eitthvað verkefni sem hentar þér og þínu áhugasviði.

Afhverju eruð þið að leita af fjármálafólki?

- Team Spark er haldið uppi af styrkveitingum frá styrktaraðilum. Öll okkar fjármál er séð um innan liðsins og er þetta því kjörið tækifæri fyrir fólk í fjármálageirunum til að öðlast frábæra reynslu.

Hver keyrir bílinn? Má ég koma í liðið og bara keyra?

- Á hverju ári fara liðsmenn í keppni, þeir sem keyra hraðast fá að keyra bílinn sem smíðaður verður. Þú verður samt að taka þátt í verkefninu meira en bara að keyra bílinn.

En ef mig langar ekki að vera í neinum hóp, má ég samt vera með?

- Já. Ef þig langar gera eitthvað verkefni sem ekki passar undir neinn hóp, þá skaltu skrá þig í liðið, og velja þann hóp sem tengist verkefninu mest, og heyra svo í stjórninni um það að gera einstaklingsverkefni. Við reynum að gefa öllum þau verkefni sem þau vilja.

Eru verkefnin í liðinu einstaklingsmiðuð eða hópamiðuð?

- Heildarverkefnin eru hópamiðuð, en verkefnin innan hópanna skiptast jafnt á að vera einstaklings eða hópa verkefni.

Má ég og vinur minn koma saman í liðið og gera allt saman?

- Já já já! Auðvitað. Ef þú kýst að vinna öll þín verkefni með öðrum aðila, þá máttu það auðvitað.

Er hægt að nýta verkefni innan liðsins í aðra áfanga?

- Mjög mikið af verkefnum sem þarf að gera í öðrum áföngum skólans henta mjög vel að séu gerð í liðinu, svo það er alveg hægt að slá tvær flugur í einu höggi ef viljinn liggur þar.