Silfra

Kappakstursbíll TS19

Silfra

Silfra er nýjasti bíll Team Spark. Bíllinn er í grófum dráttum mjög svipaður fyrri bíl í hönnun en þó höfðu ýmis kerfi verið bæði fínpússuð og betrumbætt. Burðarvirkið, sem er úr koltrefjum, var létt um 30% og nýjar aðferðir notaðar við framleiðslu. Rafkerfi bílsins var gert áreiðanlegra og skynjarakerfi stækkað til að geta greint vandamál og flöskuhálsa betur. Nýtt fjarskiptakerfi gerði liðsmönnum kleift að fylgjast með öllum kerfum bílsins yfir netið í rauntíma. Þar með mátti fylgjast með afköstum, stöðu rafhlaða og ýmsu fleiru ásamt því að láta ökumenn vita ef til þess kom.

Keppnir

Smíði Silfru lauk í maí 2019 og því gafst góður tími til að prófa bílinn hérlendis fyrir keppnir. Um sumarið var keppt með Silfru á þremur keppnum í Evrópu. Fyrst var keppt á Autodromo Varano á Norður-Ítalíu. Þar gengu prófanir vel og fékk bíllinn að keyra í öllum akstursgreinum þó svo að síðustu greininni hafi verið sleppt vegna tímaþröngs. Eftir það var bílnum pakkað í flýti í flutningabíl og fluttur til Red Bull Ring í Austurríki, sem er ein fullkomnasta Formúlu 1 braut heims. Dómarar þar voru töluvert strangari og settu athugasemdir við eitt og annað. Liðsmenn þurftu að hafa hraðar hendur og tókst að laga öll atriðin á einum degi. Bíllinn keyrði átta hringi í langkeyrslu (e. endurance) en þurfti að hætta vegna villu í rafhlöðupakka.

Eftir tveggja vikna pásu tók við seinasta keppnin á Spáni. Strax var hafist handa við lagfæringar á bilunum og komst bíllinn nokkuð vandkvæða laust í gegnum öryggisprófanir. Tekið var þátt í hröðun (e. acceleration), hringakstri (e. skid pad) og tímatöku (e. autocross) en á öðrum hring brotnaði drifkerfið sem varð til þess að hætta þurfti keppni. Lagfæringar voru gerðar en við rétt runnum út á tíma og náðum því ekki að taka þátt í seinustu akstursgreininni.

Upplýsingar

  • 100 kW (130 hö.) Emrax 228 rafmótor

  • 6,2 kWh rafhlöður með 600 V spennu (144 LiPo sellur)

  • A-arma fjöðrunarkerfi með Z-flex veltihemli

  • Keðjudrif með LSD mismunadrif

  • Þyngd 232 kg

  • Hámarkshraði 136 km/klst