Garún er nýjasti bíll Team Spark. Helsta sérkenni hennar er að burðarvirkið er úr koltrefjum í stað stálgrindar. Þessi tegund af burðarvirki nefnist einbolungur (e. monocoque) sem hefur aldrei áður verið smíðað á Íslandi. Auk þess voru gerðar bætur á rafkerfi bílsins, til dæmis er inngjafarmerkjum og nauðsynlegum öryggisbúnaði nú stjórnað með tölvu í stað analog rafrása. Loftflæðipakki bílsins, þ.e. vængir, hliðarsvæði og undirbakki voru gerðir sterkari og léttari ásamt betri greiningum á áhrifum þeirra.
Smíði bílsins lauk um mitt sumar 2018 og náði liðið að keppa á Formula Student Spain. Keppnin var haldin á Circuit de Catalunya, formúlu 1 braut þar sem engu er til sparað. Bíllinn komst án vandræða í gegnum mekaníska skoðun en skoðun á rafmagninu tók lengri tíma. Dómarar fundu nokkur atriði sem ekki voru í samræmi við reglur og þurfti rafmagnshópurinn að laga kerfið á staðnum. Bíllinn stóðst þó allar skoðanir á endanum og náði liðið að keyra í síðustu akstursgreinunum sem stóðst væntingar. Liðið fékk einnig verðlaun fyrir besta liðsandann á keppninni.
100 kW (130 hö.) Emrax 228 rafmótor
6,2 kWh rafhlöður með 600 V spennu (144 LiPo sellur)
A-arma fjöðrunarkerfi með Z-flex veltihemli
Keðjudrif með LSD mismunadrif
Þyngd 253 kg
Hámarkshraði 136 km/klst